„Snákagryfja femínisma og veganisma”
Birgir Fannar fór mikinn í athugasemdakerfi Karlmennskunnar á Facebook á dögunum þar sem hann lýsti vandlæti sínu á efnistökum miðilsins. Birgir skrifaði meðal annars: „Það er engin karlmenska hér eingöngu skipulögð eyðilegging á henni” og tók illa í það þegar honum var ekki svarað efnislega eða á jafn hranalegan hátt: „Ég myndi segja hver skar af þér eystun, en það er ekki móðgun í þínum eyrum þú værir vís til að skera þau af þér sjálfur og þó þú sért kanski með þau líkamlega, andlega séð ertu löngu búin að henda þeim í tunnuna ásamt stolti, dugnaði og hugrekki“, skrifaði Birgir Fannar meðal annars.
Sjaldan, ef nokkurntíman, hafa samskipti í gegnum athugasemdakerfi fréttamiðla eða samfélagsmiðla leitt af sér vitræna niðurstöðu. Ég taldi því ekki gagn af því að svara Birgi efnislega en verandi sérstakur áhugamaður um andspyrnu gegn jafnrétti bauð ég honum að gera frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum í hlaðvarpsþættinum Karlmennskan. Boðið þáði hann og sagðist tilbúinn til þess að „mæta í þessa snákagryfju femínisma og veganisma bara til þess að segja auglitis til auglitis hvað mér þykir um þessa óþverra stefnu þína sem lyktar af fégræðgi og áróðri einum saman“.
„Kvenlegir menn munu ekki erfa Guðs ríki“
Útgangspunktur viðtalsins var að draga fram viðhorf Birgis Fannars til jafnréttis og karlmennsku og rökstuðning hans fyrir þeim viðhorfum. Biblían, eða túlkun og skilningur Birgis Fannars á biblíunni, virtist þungamiðja í viðhorfum og skoðunum hans til hinna ýmsu mála þótt erfitt sé að finna þá tengingu. „Þeir menn sem alast upp með einstæðum mæðrum eru í stórhættu á að verða kvenlegir“, sagði Birgir Fannar meðal annars og sagði að kvenlegir menn myndu ekki erfa Guðs ríki. Hafði hann því miklar áhyggjur af því að Karlmennskan væri að kvengera drengi og karlmenn og bæla niður „eðli“ þeirra og karlmennsku. Fullyrti hann að föðurleysi drengja væri mikið vandamál, og í raun stórhættulegt því feður væru þeir einu sem kenndu drengjum að verða að mönnum.
Birgi Fannari fannst ekki mikið til Druslugöngunnar koma og taldi hana „réttlæta lauslæti og framhjáhald. Reyna að mála eitthvað sem var slæmt sem gott. Það er innifalið í orðinu, drusla þýddi það einu sinni og þýðir það ennþá hjá fólki sem fylgir ekki femínisma“. Þá spurði hann mig: „Hvaða hag hefur þú af því að styðja druslugönguna ef þú ert fjölskyldufaðir?“ og virtist engan áhuga hafa á að taka mark á þolendum ofbeldis né því sem Druslugangan stendur fyrir. Raunar hæddist hann að því að gerendur bæru einir ábyrgð á ofbeldi því hann taldi þolendur kalla það yfir sig.
Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.
Hættuleg orðræða
Unnur Gísladóttir framhaldsskólakennari, femínisti og vinkona mín hlustaði á viðtalið við Birgi Fannar áður en þátturinn var gefinn út og áttum við stutt samtal um viðtalið, sem fylgir í lok þáttar. „Það fengu örugglega margir hjartslátt við að hlusta á þetta“ sagði Unnur og játaði að hafa verið fegin þegar viðtalinu lauk. „Verandi kona að hlusta á þetta þá er galið hvað hann beitir ítrekað mikilli kvenfyrirlitningu í samtalinu“ og vísaði Unnur til umræðunnar um Druslugönguna, þungunarrof (sem Birgir talaði um sem barnamorð), karlmennsku, mæður og fjölskyldur.
Þrátt fyrir að (vonandi) fáir deili öllum sjónarmiðum Birgis Fannars þá taldi ég rétt að birta viðtalið í því skini að veita innsýn í viðhorf einstaklings sem ekki eru til þess fallin að styðja við jafnrétti, mannvirðingu né mannréttindi. „Fólk þarf að heyra þessi sjónarmið af því við þurfum að bregðast við þessu, þessi viðhorf og orðræða er víða“ sagði Unnur og ég tek undir það því við sjáum að það sem áður var einungis orðræða í lokuðum hópum útnára internetsins (t.d. Incel) hefur komist inn í meginstraum orðræðu sumra karla og ungra drengja. Við getum ekki og megum ekki láta slíka orðræðu eiga sig, heldur verðum að spyrna við henni.
(Skrifað af ÞVE)