PISTILL: Ekki bara vitleysingar og sjúklingar
„Femínismi er það versta sem hefur komið fyrir landið,“ sagði Birgir Fannar í 43. þætti hlaðvarpsins Karlmennskan og hélt síðan áfram í tæpan klukkutíma að lýsa fordómafullum, meiðandi, hatursfullum og kvenfyrirlítandi skoðunum sínum á ýmsum málefnum. Aldrei hafa jafn margir hlustað eins hratt á einn þátt af 45 útgefnum hlaðvarpsþáttum Karlmennskunnar og lang flestum blöskraði afstaða viðmælanda míns.
Dæmigerð viðbrögð
„Þorsteinn hefur fundið lifandi steingerving”, „þessi maður er óþægilega triggerandi”, „vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta” og „er þetta ekki bara andlega veikur einstaklingur?” eru dæmi um viðbrögð fólks við þeim viðhorfum sem Birgir Fannar lýsti. Þótt ég viti ekkert um andlegt ástand viðmælanda míns þá ætti það ekki að gera hann að síðri viðmælanda eða skoðanir hans sjálfkrafa ómarktækar.
Viðbrögð fólks gefa til kynna að um veikan einstakling sé að ræða eða einstaka frávik. Einhvern steingerving sem grafinn var upp úr fortíðinni sem hljóti að vera vitlaus eða veikur. Hvort sem það er raunin eða ekki þá deila því miður margir sjónarmiðum hans. Hans viðhorf eru meira ríkjandi en fólk virðist kveikja á. Eðlilega eru ekki margir jafn grímulausir í andúð sinni en sumir láta þó í þær skoðanir sínar skína í hálf-lokuðum facebook hópum, vinahópum, tiktok commentakerfum og athugasemdakerfum fréttamiðla.
Commentakerfið
Birgir Fannar er svo sannarlega ekki sá eini í heiminum með vondar og meiðandi skoðanir til kvenna, jafnréttis, femínisma eða mannréttinda. DV fjallaði um viðtalið við Birgi Fannar og í athugasemdakerfinu tók Árni Stefán grímulaust undir boðskap Birgis Fannars: „Helvíti gott hjá honum. Hverju orði sannara”. Helga Dögg tók óbeint undir með Birgi og sagðist aldrei hafa „skilið afhverju orðið [drusla] heillar konur, hvað þá að þær vilji kenna sig við orðið” og Huginn sá tilefni til að gagnrýna framkomu mína í þættinum „leikskólakrakkinn Þorsteinn að metast í viðtalinu […] vanþroskað og ljótt […] það þarf illkvittni til að reyna að smána mann með þessum hætti” en tók ekki fram að neitt væri athugavert við skoðanir viðmælanda míns. Vondu viðhorfin eru ekki heldur bara bundin við einstaka commentara í commentakerfinu.
Jafnréttissinnar
Ótal sinnum höfum við séð menn með hræðilegar skoðanir klappaða upp af öðrum, jafnvel hrósað fyrir hugrekkið að láta ekki „réttlætisriddara” vaða yfir sig. Láta ekki „femínistana” taka yfir sem „hafa engan húmor”. Uppklappið er samt oftar í dulbúningi vandlætingar á þeim sem benda á eða gagnrýna það sem ætti að vera öllum augljóst að er meiðandi og fordómafullt. Vandlætingar sem birtast t.d með því að hnýta í aðferðir femínista við gagnrýni sína, vega að persónu þeirra eða efast um málstaðinn sjálfan. Það er það sem er raunverulega hættulegt. Hversu margt fólk, margir menn, fá að fljóta hjá í svokölluðu „hlutleysi“ með óbeinni (eða beinni en dulinni) afstöðu sinni gegn jafnrétti.
Ég sé ekkert nema blæbrigðamun á afstöðu Birgis Fannars og mörgum sem kalla sig jafnréttissinna. Sem sjá ekki hvernig feðraveldi, íhaldssamar hugmyndir um kynhlutverk og karlmennsku, þjóðernisrembingur og óbilandi trú á einstaklingsframtakinu er bein fyrirstaða jafnréttis. Undir þessum tvískinnungi og hugræna misræmi fá viðhorf eins og Birgis Fannars að rótfestast í felulitum mannvina og jafnréttissinna. Þar sem fólk sem bendir á vandann, bendir á misrétti og fordóma er talið öfgafull, dónalegt, húmorslaust eða ofbeldisfullt. Þar sem femínistar eru vandinn en allir eru svaka jafnréttissinnar.
Geiturnar
Á meðan mest áberandi karlkyns einstaklingarnir beita fyrir sig „ekki illa meintu” gríni og fordómum, gera lítið úr femínistum og frásögnum þolenda ofbeldis þá er augljóst hvað er eftirsóknavert og hvað ekki. Flottu og fyndnu útvarpsmennirnir, sniðugu og góðu Twitter-geiturnar, fótbolta-kings, tónlistarmennirnir og áhrifavaldarnir eiga meira sameiginlegt með Birgi Fannari en við viljum trúa. Þeir tala kannski ekki jafn grímulaust gegn jafnrétti en þeir gera okkur og mini-útgáfunum af sjálfum sér algjörlega ljóst að vera bara chill. Ekki vera með vesen, ekki vera svona PC, ekki vera femínistar eða allavega ekki „öfga” og hætta að „móðgast fyrir hönd annarra”. Leyfa hlutunum að slæda og vera bara með smá „húmor”. En grín getur meitt og við erum fyrir löngu komin með ógeð á að leyfa meiðandi viðhorfum bara að slæda.
Völd og áhrif
Helsti munurinn á Birgi Fannari og geitunum og kóngunum á samfélagsmiðlum er hvernig þeim tekst (oftast) að dulbúa fyrirlitninguna sína og fordómana. Og, það sem er varhugavert og greinir geiturnar kannski helst frá Birgi Fannari, eru áhrifin. Áhrifin sem mest áberandi og eftirsóknarverðu áhrifavaldarnir, geitur og kings, hafa eru þau að megnið af ungum strákum, ungu kynslóðinni sem á að færa okkur jafnréttið sjálfkrafa, telur jafnréttinu náð, fordóma tilheyra fortíðinni og þar af leiðandi allar aðgerðir og gagnrýni óþarfa viðkvæmni eða öfgar. „Birgir Fannar” er töluvert nær okkur og áhrifameiri en sum okkar halda eða vilja trúa.
Skrifað af Þorsteini V. Einarssyni.