Pistill: Gegnum nálaraugað
„Ég er eiginlega sammála þér en bara ekki aðferðinni“ er setning sem ég hef heyrt svo óteljandi oft um femínískar konur, aðgerðasinna og reyndar um sjálfan mig líka. Mér þætti gaman að heyra hvaða aðferð þessir menn vilja fara sem hafa svona miklar áhyggjur af aðferðafræði femínista og flestra aðgerðasinna.
Að hnýta í aðferðina er ein birtingamynd á þeim ofurkröfum sem gerðar eru til fólks sem vogar sér að beita femínískri og róttækri gagnrýni á samfélagið. Birtingamynd þess hvernig aðgerðasinnar og femínistar eru stöðugt undir smásjáreftirliti. Þar sem þú hatar karla ef þú gagnrýnir karllægni, „drepur“ menn fyrir að tala um (meint) ofbeldi sem þeir eiga að hafa beitt og ef þú lætur glitta í að þú sért mennsk ertu hræsnari og marklaust. Sama hvað, aðferðin sleppur aldrei gegnum nálaraugað og þú ekki heldur.
Vildi óska að fólk verði jafn mikilli orku í að láta vini sina vita þegar þeir segja eða gera eitthvað óviðeigandi eða meiðandi. Að aðferðafræði ekki-femínista væri mæld eftir sömu mælistiku og femínista, vegana og aðgerðasinna. En í staðinn fær allt að slæda. Hvað ætli margir sem hafa áhyggjur af aðferðafræði femínista hafi sent skilaboð eða commentað undir hjá þjálfaranum með fitufordómana? Eða sendu skilaboð á karlrembu áhrifavaldinn sem hatar rauðhærða og studdi meintan geranda og gerði lítið úr þolendum? Ég þykist viss um að aðferðafræði þeirra við að gera grín hafi ekki þótt neitt sérstaklega athugaverð.
Ekki misskilja. Ég vill gagnrýni og það er mikilvægt að halda fólki á tánum sem er í áhrifastöðu. Ég er ekki að biðja um meðvirkni eða þöggun, heldur einungis að þið sjáið samhengið. Veltið því fyrir ykkur hvort að aðrir í ykkar lífi eru mældir með sömu mælistiku og fólkið sem beitir femínískri gagnrýni eða krefst ábyrgðar eða aðgerða.
Femínistar, fólkið sem berst fyrir mannréttindum, umhverfissinnar, veganar og aðrir aðgerðasinnar eru breysk og mennsk. Það þarf ekki að koma á óvart. Ég bið bara um sama siðferðisþröskuld fyrir allt fólk, ekki bara fyrir þau sem eru að reyna að gera eitthvað til að bæta heiminn.
Teikning: Herdís Hlíf @herdill.art