ÞÁTTUR 47: Þegar barn er beitt kynferðisofbeldi
Í nýjasta hlaðvarpsþættinum ræði ég við konu undir dulefninu Aníta sem er brotaþoli og aðstandandi brotaþola, en barnið hennar var beitt kynferðisofbeldi. Í þættinum fáum við stutta frásögn af reynslu og vangaveltum Anítu sem kallar eftir frekari umræðu um aðstandendur brotaþola. Tilurð þáttarins má rekja til þessara skilaboða sem Aníta sendi mér í gegnum samfélagsmiðla Karlmennskunnar:
„Sæll Þorsteinn og takk fyrir mjög fræðandi og skemmtilega podcast þætti.
Ég er búin að binge hlusta á þá næstum alla. Verandi sjálfstæð móðir til margra ára og með ýmsa reynsluna á bakinu langar mig að stinga upp á topic fyrir podcastið. Var að klára þátt þar sem ónafngreind kona ræddi um narsískan fyrrverandi, þar sem hún gat í rauninni verið að tala um mitt fyrra hjónaband. Þetta eiginlega er ástæðan fyrir að eg skrifa til þín, fannst þetta svo athyglisvert.
Í ljósi allrar umræðunnar um kynferðisofbeldi, gerendur og gerendameðvirkni, skrímslavæðinguna, þolendur og allt sem því tengist finnst mér vanta umræðuna um aðstandendur þolenda, og þá kanski sérstaklega foreldra barna sem lent hafa í kynferðisofbeldi. Hvernig kemst maður yfir eða lifir með þessa lifsreynslu? Er eitthvað sem heitir nógu langur dómur? Hvernig heldur maður áfram þrátt fyrir samviskubitið sem fylgir því að hafa verið í sambandi við mann sem brýtur á barni manns? Er hamingja eftir að barninu manns var nauðgað? Eða bara allar hinar spurningarnar sem veltast um í höfðinu á mér. Á maður einhverntiman eftir að treysta manni aftur?“
Í samráði við Anítu leitaði ég til Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttur talskonu Stígamóta til að fá hennar sjónarhorn á upplifun og reynslu Anítu. Steinunn segir að mikilvægt sé að aðstandendur fái stuðning og bregðist rétt við þegar, sérstaklega börn, segja frá erfiðri lífsreynslu: „Að vera aðstandandi getur verið erfitt og flókið og það er mikilvægt að fá stuðning. Það er mikilvægt að foreldrar barna sem segja frá kynferðisofbeldi fái stuðning og ég vil minna á að sá stuðningur stendur til boða hjá Stígamótum [...] Við höfum verið með neyðartíma fyrir aðstandendur því það skiptir svo miklu hvernig fyrstu viðbrögð eru.“ Steinunn segir að fyrstu viðbrögð geti skipt sköpum í því hvernig brotaþola takist að vinna úr afleiðingum brotsins.
Skrímslin sem beita ofbeldi
Gerandi Anítu er sá sami og beitti síðan dóttur hennar kynferðisofbeldi. Aníta lýsir gerandanum sem vel menntuðum manni sem hafi almennt komið vel fyrir og sumum hafi jafnvel þótt fjarstæðukennt að hann gæti framið jafn hræðilegt ofbeldi og raunin er. „Þegar við tölum um að afskrímslavæða þá er það til að koma því inn að við getum trúað því að einhver rosa fínn gaur geti beitt ofbeldi. Til þess að hjálpa okkur að trúa því að allskonar menn geti beitt ofbeldi þannig að brotaþolar standi ekki þarna úti og tali um ofbeldið sitt og enginn trúir.“, segir Steinunn talskona Stígamóta. Anítu er ekki bara hugleikinn stuðningur við aðstandendur brotaþola heldur einnig umræðuna um gerendur og afskrímslavæðingu þeirra. Því í augum Anítu er gerandi hennar og dóttur hennar skrímsli sem hún myndi helst aldrei vilja sjá aftur. „Mér finnst skrímslaumræðan áhugaverð. Eiga menn sem fremja ljót afbrot afturkvæmt í samfélagið? [...] Ef maður tekur þetta persónulega frá eigin reynslu þá nei. En þannig virkar samfélagið ekki. [...] En hvernig á maður að geta óvart rekist á ofbeldismanninn sem braut á barninu þínu í ísbúðinni eða Kringlunni?“, spyr Aníta og segir að sumir virðast einfaldlega vera illa innrædd skrímsli sem eigi sér varla viðreisnar von. Steinunn tekur undir þessi sjónarmið og segir að stundum sé erfitt að skilja hversu vonda hluti sumir geti gert. Steinunn bendir á að „brotaþola má alveg finnast gerandinn vera skrímsli [...] Þegar við erum loksins farin að trúa því að góðir strákar beita ofbeldi þá förum við, af því okkur finnst þetta svo erfitt, að útskýra og réttlæta hvers vegna þeir gerðu þetta. Við þurfum að komast yfir það“. Steinunn segir að við þurfum að hætta að útskýra, réttlæta og þannig taka ábyrgð gerenda frá þeim.
Hlustaðu á 47. hlaðvarpsþátt Karlmennskunnar í spilaranum hér fyrir neðan eða á Spotify eða Podcast-appinu.
Aníta gefur innsýn í aðstæður sínar og reynslu af ofbeldi og Steinunn útskýrir algeng viðbrögð aðstandenda brotaþola, hvers vegna mikilvægt er að bregðast rétt við, hvaða þjónustu Stígamót bjóða aðstandendum og flækjurnar í umræðunni um gerendur, skrímsli og afleiðingar ofbeldis.
Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli
Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.