Forréttindin að tilheyra fótboltaklefanum

Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í fótbolta var viðmælandi 49. hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar. Spjallið í þættinum, en kannski ekki síður spjallið okkar eftir að slökkt var á upptöku og síðan viðbrögð fólks eftir útgáfu þáttarins fékk mig til að hugsa fast um forréttindi. 

Forréttindi

Ég taldi mig lengi vel ekki búa við nein forréttindi enda fannst mér jafnréttismál ekki koma mér við og karlmennska var hugtak sem ég hafði aldrei velt fyrir mér fyrr en ég var að nálgast þrítugt. Hægt og bítandi hef ég lært meira um forréttindin sem fylgja því að vera karlkyns og hvað þá hvítur íslenskur ófatlaður gagnkynhneigður og sískynja (tilheyri því kyni sem mér var úthlutað við fæðingu). Forréttindi sem eru algjörlega sjálfsköpuð, það er að segja ég gerði ekkert nema fæðast í þennan heim til að njóta þessara forréttinda. Ef við síðan bætum ofan á þessi forréttindi að ég var ágætur í fótbolta og spilaði með meistaraflokkum, naut félagslegrar velsældar, á góða vini, þokkalega tengdur, menntaður og bý við fjárhagslegt öryggi þá er auðvelt að sjá að öll þessi forréttindi greiða götu mína hvar sem er og veita mér tækifæri sem önnur eiga erfitt með að öðlast. Forréttindin skapa aðstöðumun milli mín og annarra sem deila ekki sömu forréttindum með mér þannig að ég er líklegri til að geta nýtt hæfni mína og getu. Það eru nefnilega forréttindi, í sjálfu sér, að geta notið tækifæra. Það er ekki þar með sagt að þótt ég hafi fæðst með forgjöf og áunnið mér enn frekari forréttindi að líf mitt sé þar með laust við erfiðleika, áföll og mótbyr. Það þýðir bara að hver ég er, hvaðan ég kem og hvernig ég er mun aldrei vera ástæðan fyrir þeim erfiðleikum eða mótbyr. Vegna þess að samfélagið vill mig, hampar mér, vill hlusta á mig og tekur frekar mark á mér en t.d. öðrum körlum, konum og kynsegin. Þegar ég segi mér, þá á ég við einstaklinga sem eiga forréttindin sameiginleg með mér og það eru einkum menn eins og ég. Og Pétur Marteinsson.

Áhrifin

Þegar meðgjöfin er þessi þá þarf ég, og menn eins og ég, ekkert að gera neitt brjálæðislega merkilegt eða leggja neitt rosalegt af mörkum til að annað fólk upplifi eða sjái það sem stórvirki. Án þess að ég vilji gera lítið úr viðmælanda mínum, Pétri Marteinssyni, eða sjálfum mér þá var spjallið okkar ekkert stórkostlega merkilegt. Við vorum bara tveir menn sem deila slatta af forréttindum að spjalla um ofbeldi, mismunun og forréttindi. Eitthvað sem konur hafa öskrað í áratugi og bent á margsinnis og skapað byltingar til að reyna að fá okkur til að sjá, skilja og gera eitthvað í. Þótt ég hafi markvisst grafið undan félagslegri stöðu minni meðal karla, með því einfaldlega að gagnrýna íhaldssamar karlmennskuhugmyndir með femínískum aðferðum, þá er Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í fótbolta. Það að hann taki einfaldlega þá afstöðu og segi að við, karlar, ættum að hlusta á konur og þolendur ofbeldis og taka ofbeldi alvarlega fékk fólk til að heyra. Líkt og hann sé frekar marktækur en allar konurnar og femínísku róttæku karlarnir. Að búa við öll þessi forréttindi fær fólk ekki bara til að hlusta frekar á þig heldur greiðir götu þína í raun hvert sem þú ferð eða hvaða leið þú velur. Þetta þekki ég eftir að hafa byrjað að tala um karlmennsku og jafnréttismál og þetta þekkir Pétur eftir að hafa stigið úr atvinnumennsku í fótbolta og í viðskiptaheiminn. Að hafa bakpokann stútfullan af forréttindum er heldur betur hreyfiafl til áhrifa og frekari tækifæra.

Fótboltaklefinn

Þá komum við að fótboltanum og klefanum. Eftir þónokkra ígrundun og spjall við Pétur, þá get ég ekki munað eftir því að klefarnir sem ég var í, hafi verið baneitraðar karlrembustíur. Þar var einmitt rík samstaða, kærleikur (upp að vissu marki), eining og góður andi. Lang oftast. Það var menningin og stemningin sem sóst var eftir. Að tengjast, styrkja böndin, stilla okkur saman og vera liðsheild. Til að ná árangri. Og það er kannski akkúrat það sem er varasamt og gagnrýnivert. Stórir hópar af strákum og mönnum sem flestir eiga það sameiginlegt að vera stútfullir af forréttindum, sjálfsköpuðum og áunnum, sem tengjast styrkum böndum. Passa hvern annan, liðið og liðsheildina. Ímyndina og orðsporið. Stórir hópar af mönnum sem bera eftirsóknarverðustu karlmennskuna, en sjá það tæplega sjálfir. Sjá tæplega að þeirra hópur er stórkostlega einsleitur forréttindahópur. Það kemst ekkert hver sem er inn í klefann. Þú þarft að taka upp tiltekin viðhorf, búa yfir tiltekinni hæfni og gerast hluti af költinu. Annars áttu lítinn sjéns. Það er kannski þess vegna sem ég, og Pétur, minnumst klefans með hlýhug og án skaðlegrar karlmennsku. Af því að við vorum inni í kjarnanum, möttlinum sjálfum. Samdauna kúltúr sem byggir á aðgreiningu, samkeppni, yfirlætisfullri karlmennsku, hörku og aga. Þegar þú ert kominn inn í klefann þá sér klefinn um þig svo lengi sem þú aðlagast honum. Þótt það hafi ekkert endilega verið meðvitað en sjálfsmynd mín, þangað til ég hætti í fótbolta, litaðist nánast að öllu leiti af því að ég væri fótboltamaður. Ég var ekkert bara fótboltamaður á æfingum og þegar ég spilaði fótbolta. Ég var „fótboltamaður“ í skólanum, vinnunni, heima hjá mér, á internetinu og allsstaðar. En ég var bara áhugamaður, ég var ekki landsliðsmaður né atvinnumaður. Ég var ekkert frægur. Samt naut ég gífurlegra forréttinda fyrir það að bera þessa karlmennsku og ímynd. Ef ég heimfæri mína reynslu og innsýn síðan á landsliðsmenn og atvinnumenn í fótbolta, poppstjörnur og aðra menn sem njóta ímyndar og stöðu sem er dýrkuð í okkar samfélagi þá á ég auðvelt með að sjá hvernig sú staða getur greitt götu ofbeldis.

Ofbeldi

Nú er ég ekki að segja að forréttindafullir menn, poppstjörnur, fótboltamenn og fleiri, séu allir ofbeldismenn. Alls ekki. Hins vegar greiðir hin dýrkaða staða götu ofbeldis á þann hátt að jafnvel þeir sjálfir sjá það ekki. Sér í lagi þegar forréttindin eru þeim sjálfum illsjáanleg og áhrifin sem forréttindin hafa á þá sjálfa og aðra í kring. Þetta skapar ójöfn valdatengsl. Forréttindin, dýrkaða staðan í bland við forrétttindafirringu (að sjá ekki forréttindin og ójöfnu valdatengslin) er eitraður kokteill.  Slíkt getur skekkt viðhorf bestu manna, aftengt siðferðiskenndina, víkkað út mörkin og greitt götu markaleysis og ofbeldis. Eðlilega, ef þú ert mestur, bestur og á leiðinni hærra hvað ætti að stoppa þig?

Ég dreg ekki úr ábyrgð þessara einstaklinga á hegðun sinni og viðhorfum. Ég er ekki að segja að þeir séu bara fórnarlömb samfélagsins eða gerendur ofbeldis séu einstaka skemmd epli. Ég er að segja að þegar gildismat samfélagsins er með þeim hætti sem það er og strákar komast undan því að taka ábyrgð á sjálfum sér, eigin viðhorfum og hegðun þá kemur ofbeldið mér ekki á óvart. Það kemur mér bara alls ekkert á óvart.

Gildismatið

Forréttindi fótboltastráka og almenn forréttindi karla stafa af gildismati sem metur öll sem ekki falla að ráðandi valdakerfum sem óæðri, minni máttar og minna virði. Konur, fatlaðir, hinsegin, brúnir, útlendingar, femínistar og kvenlegir karlar eru ekki jafn hátt skrifuð og „alvöru menn“. Sjálfsköpuðu forréttindin sem auka líkur á áunnum forréttindum, tækifærum og lífsgæðum falla einkennilega vel að fótboltastrákum. Fótboltamönnum. Alvöru mönnum. Þegar allt ýtir undir að þú sért geggjaður, frábær, stórkostlegur, fyrirmynd og góður strákur þá hlýtur allt sem þú gerir að vera frekar frábært. Ég sé hversu auðvelt er að trúa því. Þegar misrétti kemur þér ekki við, ofbeldi er framið af vondum skrímslum, femínistar eru vælandi kellingar og kvenlegir karlar sem þrá að öðlast þann status sem þú hefur þá kemstu undan því að horfast í augu við sjálfan þig. Horfast í augu við hve stór hluti af vandamálinu þú ert. Af því þú ert svo flottur og frábær. Vandamálið er bara allar þessar helvítis vælandi kellingar, femínstar og karlaumingjar. Þú vilt bara fá að vera í friði og spila fótbolta. Slæda fortíðinni undir teppið án þess að gangast við henni. Vinir þínir eru sammála þér, þjálfarinn, aðstandendur þínir og meira að segja samfélagið, fyrir utan athyglissjúkar druslur og ófullnægðar miðaldra kellingar. 

Þökk sé þessum „athyglissjúku druslum“ og „ófullnægðu kerlingum“ þá er samfélagið og gildismatið að breytast. Það mun breytast og er að breytast. Það er ótrúlega auðvelt að taka þátt í breytingunni, þótt það kunni að vera óþægilegt að brjóta örlítinn odd af oflætinu sem forrétindin hafa fært þér. Ef við fengjum að sjá örlítinn brodd af auðmýkt, hlustun og skilning af hálfu þeirra sem gagnrýnin beinist að þá er ég viss um að okkur myndi takast hraðar að breyta því gildismati sem styður, dylur og nærir ofbeldismenningu. En á meðan varðhundar ráðandi karlmennskunnar og feðraveldis í búningi sjálfskipaðra fulltrúa réttlætisins og hins sanna sjónarhorns berja á þolendum og afvegaleiða umræðuna munu breytingarnar taka lengri tíma. Þá munu gerendur ofbeldis komast undan því að axla ábyrgð. Handhafar og holdgervingar ráðandi karlmennskunnar, hinnar eftirsóknarverðustu tegundar karlmennsku, munu geta frestað því að horfast í augu við eigin forréttindi, forréttindafirringu og tengsl þess við misrétti og ofbeldi. Þolendur ofbeldis og þau sem benda á misréttið verða áfram talin öfgafull, hatursfull, eyðileggjandi og ofbeldisfull. En það viðhorf endurspeglar akkúrat gerendameðvirknina, forréttindafirringu og gildismatið sem byrjað er að kvarnast upp úr. Hvernig væri að við, forréttindafullir karlar, litum inn á við, hlustuðum og tækjum mark á femínískri gagnrýni og tækjum höndum saman með þeim sem benda okkur á inngrónar skekkjur samfélagsins? Ég er sannfærður um að ef við höggvum í sprungur feðraveldis og rotið gildismat samfélagsins með þolendum, femínistum og mannréttindasinnum verður ávinningurinn öllum til hagsbóta. Nema kannski þeim sem vilja fela og styðja ofbeldi.

Skrifað af ÞVE

Previous
Previous

„Stóra mómentið er núna“ - Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB

Next
Next

ÞÁTTUR 47: Þegar barn er beitt kynferðisofbeldi