#59 „Síðastur í markið er hommi“ - Ástrós Anna Klemensdóttir
Í ljósi fregna að Josh Cavallo ástralskur fótboltamaður kom opinberlega út úr skápnum fékk ég Ástrósu Önnu meistaranema í félagsfræði til samtals við mig. Við ræddum um áberandi skort á samkynhneigðum fótboltamönnum. Þá fjallar Ástrós Anna um rannsókn sem hún gerði meðal íslenskra fótboltamanna sem varpar ljósi á þær hómófóbísku hugmyndir sem þekkjast innan greinarinnar, hvernig skaðleg orðræða, kvenfyrirlitning og ríkjandi karlmennsku er viðhaldið innan menningar fótboltans hér á landi. Vonin er þó að yngri kynslóðin sé færari í fjölbreytileikanum og hugsanlega að hún hreyfi við ríkjandi karlmennsku hugmyndum. Það eiga „allir að geta æft fótbolta“ eins og Ástrós Anna segir.
Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
Eftirvinnsla: Unnur Gísladóttir
Tónlist: Mr. Silla - Naruto (instrumental)
Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar og The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).
Tilvísanir úr viðtalinu
Mín. 05:50
„Út frá tölfræði, þá bara gengur það ekki upp að það sé enginn leikmaður í efstu deild á heimsvísu samkynhneigður“.
Mín. 06:50
„Þú þarft að standa þig og samræmast ákveðinni ímynd, þessari karlmennsku fótbolta ímynd og ég ímynda mér að ef þú ert samkynhneigður eða sért einhvern vegin að burðast með kynhneigð þína í hljóði þá sé erfitt að vera í þessu umhverfi“.
Mín. 07:11
„Það eru dæmi um leikmenn sem hafa hætt í fótbolta út af því að þeir þurftu bara að velja, bara langar mig að lifa tvöföldu lífi og vera í fótbolta en samt samkynhneigður og ekki segja neinum eða langar mig bara að vera ég sjálfur?“
Mín. 09:00
„Orðræðan er rosalega sterk afl í fótbolta, hún birtist meðal leikmanna, hún birtist hjá þjálfara og meðal stuðningsmanna“.
Mín. 12:55
„Það er svona ákveðin klefamenning sem á sér stað, þar sem að leikmenn eru að slá um sig oft, tala um stelpur og það er ákveðið svona sjomlatal“.
Mín. 14:16
„Til dæmis tal um andleg veikindi eða bara kvíða, þunglyndi, eða hugsanlega að þú sért á einhvern hátt „öðruvísi“, að þú sért ekki gagnkynhneigður þá ertu hugsanlega að gefa á þér veikan blett“.
Mín. 20:09
„Það var sagt ekki spila eins og kerling, þú veist maður var einhvern vegin bara hvað 7, 8 ára þegar maður heyrði talað svona það er slæmt að spila eins og stelpa. Það er einhver vegin bara eitthvað sem maður sætti sig við, svo þegar maður verður eldri hugsað maður „af hverju““.
Mín. 21:22
„Kvennalandsliði á Íslandi er bara miklu betra en karlalandsliðið. Ég veit ekki alveg hvernig það er hægt að gera lítið úr körlum á kostnað kvenna, ég bara skil ekki alveg hvernig það gengur upp?“
Mín. 23:55
„Karlmennska er ekki eitthvað klippt og skorin og þeir eru ekki allir einhverjir „macho man“ sem hafa ekki tilfinningar, ég held að þetta brjótist fram út af því þeir eru búnir að vera að reyna að samræmast einhverjum ráðandi karlmennsku hugmyndum. En þeim þykir vænt um hvorn annan og þeim langar að sýna það og þá brýst fram svona hegðun, einhverskonar væntumþykja eða eitthvað grín eða persónusköpun“.
Mín. 29:55
„Jafnréttisumræðan innan knattspyrnusambandsins hefur ekki verið til staðar og íþróttahreyfingin miðar að því að vera aðgengileg öllum, hún á að vera það. Það á hver sem er að geta æft fótbolta.“