Réttlæti?
Í umræðu um kynferðisofbeldi hefur bersýnilega komið í ljós að þolendur eiga erfitt með að ná fram réttlæti. Þegar konur, sem eru að megninu til þolendurnir, opna á sára reynslu sína og jafnvel nafngreina gerendur mætir þeim orðræða réttarkerfisins. „Dómstóll götunnar“, „saklaus uns sekt er sönnuð“ og talað um „mannorðsmorð“. Rannsóknir hafa hins vegar ítrekað dregið fram að réttarkerfið er illa hannað til að taka á kynferðisofbeldi og nær sjaldnast að tryggja réttlæti í hugum brotaþola.
Þegar stofnanir sem eiga að tryggja réttlæti eru illa í stakk búnar til þess, kemur upp erfið staða þar sem þá þarf að leita annara leiða. Afrakstur áratugalangrar baráttu þolenda kynferðisbrota fyrir viðurkenningu, sem og tækninýjungar eins og samfélagsmiðlar, hefur leitt til þess að þolendur geta loks í auknum mæli stigið fram og talað um reynslu sína af ofbeldi og þannig krafið samfélagið um stuðning og þrýst á gerendur að taka ábyrgð á gjörðum sínum.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Ýmist upplifa þolendur stuðning eða mótbyr. Mótbyr sem tekur á sig ýmsar myndir. Meintir gerendur ýmist hóta lögsóknum eða hefja einkarefsimál gegn þolendum fyrir að tjá sig opinberlega, eða fara í mál gegn atvinnurekendum ef þeir hafa misst starfið í kjölfarið. Einnig ber á gerendameðvirkni, hannúð og þolendaskömm á meðal ýmissa aðila á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.
Félagslegt réttlæti er ekki síður mikilvægt en lagalegt réttlæti. Rannsóknir hafa sýnt að lykilþættir í hugmyndum þolenda um réttlæti er að upplifa stuðning frá nærumhverfi sínu og samfélaginu og að gerendur taki ábyrgð á gjörðum sínum. Mikilvægt er að flækjast ekki um of í hugtökum réttarkerfisins þegar kemur að félagslegu réttlæti. Hin félagslega krafa er að við sem vinir, vinkonur, fjölskyldumeðlimir, samstarfsmenn, atvinnurekendur gerenda og þolenda styðjum þolendur í leit sinni að viðurkenningu og sköpum pressu á gerendur til að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Að draga ekki úr ábyrgð þeirra eða gera lítið úr brotum. Það er liður í því að þroskast og búa til betra samfélag þar sem kynferðisofbeldi þrífst ekki. Fyrst þolendur svo gerendur. (Texti skrifaður með Hildi Fjólu Antonsdóttur doktor í réttarfélagsfræði / teikning Anna Shumeeva).
GERENDUR FÁ AFSLÁTT EN HVAÐ FÁ ÞOLENDUR?
Í þessum anda var nýjasti hlaðvarpsþáttur Karlmennskunnar þar sem baráttukonurnar Ólöf Tara Harðardóttir meðlimur í Öfgum og Fjóla Heiðdal veittu innsýn í upplifun þolenda og baráttukvenna á umræðunni um kynferðisofbeldi og gerendur. Gerendamiðaður fókus sem oft er litaður af gerendameðvirkni, hannúð og gagnrýni á þolendur og baráttufólk gegn ofbeldi hefur sannarlega triggerandi áhrif á þolendur. Eins og Fjóla Heiðdal lýsti áhrifum umræðunnar á sig, verandi þolandi ofbeldis: „Að fá allar þessar frásagnir upp aftur og sjá hvað við höfum náð fram litlu réttlæti og sjá hvað mótstaðan er mikil vekur upp áfallastreituröskunar einkenni. Ég er með stoðkerfisvanda og mígrenisköst, viðkvæm og lítil í mér. Þetta hefur áhrif á hvernig ég sinni vinnunni minni, háskólanáminu mínu og börnunum mínum. Þetta litast út í allt mitt líf, þetta eru ekki bara andleg einkenni heldur er ég actually með líkamleg einkenni við umræðunni.“.
Í þættinum veltum við því fyrir okkur við hverja sumir „sérfræðingar“ eru að tala þegar talað er um að „baráttan þurfi að vera málefnaleg“ og þegar spurt er hvort „taka eigi menn af lífi“. Er þá verið að styðja gerendur til að axla ábyrgð og ýta undir pressuna sem byltingar kvenna hafa skapað á gerendur að líta í eigin barm og gangast við gjörðum sínum? Eða er eingöngu verið að beina sjónum að þolendum og baráttufólki og fá það til að hætta að tala um reynslu sína og ofbeldið? Eru „sérfræðingarnir“ og áhugafólkið, sem fær gjarnan allt of mikið pláss í umræðunni, jafnvel að vinna þolendum og samfélaginu meiri skaða með þessum athugasemdum?
Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar, The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).