„Þar er alveg menning fyrir því að selja stelpur undir borðið.“

1.png

Ég var í neyslu í mörg ár áður en ég fer að nota vímuefni í æð og þá fer ég í allt annan heim. Veruleiki sem ég hafði aldrei kynnst áður. Þar er alveg menning fyrir því að selja stelpur undir borðið.“ segir Inga Hrönn Jónsdóttir úr skipulagsteymi Druslugöngunnar sem verður farin laugardaginn 24. júlí kl. 14.00 frá Hallgrímskirkju. Druslugangan er mótmæli gegn nauðgunarmenningu og því viðhorfi að það sé þolendum ofbeldis um að kenna að verða fyrir ofbeldi. Þá er gangan samstöðuviðburður með þolendum ofbeldis og í ár verður sérstök áhersla á valdaójafnvægi. „Ég fann svo sterkt hvað konur í neyslu hafa enga rödd. Þetta eru konur sem eru algjörlega jaðarsettar í samfélaginu og eiga ótrúlega erfitt með að ná fram réttlæti. [...] Þessi týpíska átta til fjögur vinnandi kona á erfitt með að fara í gegnum dómskerfið en að upplifa þetta sem fíkill, hvernig lögreglan lítur á okkur sem skítinn undir skónum sínum, gerði mig svo ótrúlega reiða og mig langar að berjast fyrir að því að vera rödd þessara kvenna“ segir Inga Hrönn en hún verður með ræðu í Druslugöngunni þar sem hún mun koma inn á hvernig jaðarsetning og valdaójafnvægi gerir fólk berskjaldaðra fyrir ofbeldi.

Manni er bara sagt að vera ekki með þetta væl

Inga Hrönn upplifði valdaójafnvægi á eigin skinni í neyslu og það hvernig ofbeldi getur fengið að þrífast án þess að það þyki tiltökumál. Hún segir önnur lögmál gilda í samfélagi þeirra sem nota vímuefni um æð . „Segi ekki allir, en myndi segja 95% af karlmönnum finnst ekkert mál að káfa og biðja um að ríða sér fyrir einn skammt. Og hef maður reynir að segja eitthvað þá er manni bara sagt að vera ekki með þetta væl.“ Inga Hrönn vill vera rödd fyrir konur sem hafa ekki rödd meðal annars vegna neyslu. Hún telur það þó geta reynst erfitt að láta byltingar ná til þess hóps sem neytir vímuefna um æð. „Prinsippin mín skekktust og ég fór að gera hluti sem ég myndi aldrei gera í dag. Á þeim tímapunkti sá ég ekkert að því. En maður er allan daginn að deyfa sig til að finna ekki neitt.“ Hún segir viðhorf sem samþykkir ofbeldi rótgróið í þennan heim og erfitt sé að hrófla við því. 

Situr uppi með þetta edrú

Fyrir konur sem hafa þurft að þola ofbeldi í neyslu þar sem prinsippin hafa verið skekkt getur reynst erfitt að verða edrú. „Þegar þú verður edrú, þá siturðu uppi með þetta. Þá ferðu að fá draumana og flassbakkið“. Þá segist Inga Hrönn finna vel fyrir fordómum í sinn garð, vegna reynslu hennar af vímuefnaneyslu, þar sem fólk telji sig vita betur hvernig hún eigi að haga sínu lífi. „Ég finn oft fyrir því að fólk lítur niður á mig. Fólki finnist þau þurfa að segja mér hvernig ég eigi að haga mínu lífi og hvernig sé best að ná bata.“ segir Inga Hrönn og tekur fram að hún sé búin að vera edrú í nokkurn tíma núna og hafi fundið leið sem henti henni vel.

Hlustaðu á 41. hlaðvarpsþátt Karlmennskunnar en ásamt Ingu Hrönn mætti Karitas M. Bjarkadóttir úr skipulagsteymi Druslugöngunnar. Druslugangan, kynferðisofbeldi, berskjölduð staða kvenna í vímuefnaneyslu gagnvart ofbeldi, meiðandi viðhorf, fordómar, andspyrna og byltingar eru umfjöllunarefni 41. hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar.

P.S. Inga Hrönn skrifaði áhrifaríka grein í Flóru sem þú getur lesið hér: https://flora-utgafa.is/7-utgafa/tilverurettur/ 



Previous
Previous

NO FUCKING WAY

Next
Next

Nokkrir vinsælir hlaðvarpsþættir