Guð gefi mér æðruleysi

AA samtökin, fíknivandi og lausn við fíkn er umfjöllunarefni nýjasta hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar. Viðmælendur eru Kristín I. Pálsdóttir talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar, Hörður Ágústsson fyrrverandi þrotamaður og meðlimur AA samtakanna og „Kalli“ , sem hlýtur nafnleynd, núverandi meðlimur í AA samtökunun. Telja þau AA samtökin bera þess merki að vera sprottin upp af kristinni bræðralagshreyfingu karla á fyrrihluta 20. aldar og þá telur Kristín 12 spora kerfið ekki henta fólki sem hafi glímt við fíkn frá unga aldri.  Telur Kristín líklegra að það sé að „glíma við annan vanda, geðrænan vanda, þroskaraskanir, tilfinningavanda, orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu“ og bætir við að „það er kannski ekkert valdeflandi þegar það er sagt við mann þegar maður er tvítugur að maður sé með ólæknandi heilasjúkdóm“.

Heilasjúkdómurinn og Guð

AA samtökin er félagsskapur sem byggir á 12 sporum sem leið til bata við alkóhólisma. Alkóhólismi er þar talinn vera ólæknandi heilasjúkdómur sem byggir á líkamlegu ofnæmi og þráhyggju gagnvart hugbreytandi efnum. Lausnin, sem liggur í 12 sporunum, byggir á persónulegri uppgjöf, uppgjöri og því að horfast í augu við eigin bresti og gjörðir. Þá er aðalamkarkmiðið að finna æðri mátt, lúta hans vilja og hjálpa öðrum til þess sama. „Þetta er trúarleg lækning á fíkn. Það samræmist rosalega illa nútíma læknisfræði, sérstaklega ef við ætlum að miða við að þetta sé ólæknandi heilasjúkdómur. Það er til dæmis enginn heila- og taugasérfræðingur að vinna inni í meðferðarkerfinu. Það eru svo margir þversagnir“ segir Kristín I. Pálsdóttir talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar, sem er félag um velferð og lífsgæði kvenna og er málsvari kvenna sem eiga sér sögu um áföll og/eða vímuefnavanda. Rótin hefur gagnrýnt SÁÁ m.a. fyrir að afneita hinu félagslega við þróun fíkniferilsins, byggja nánast eingöngu á líffræðilegri nálgun og beina síðan fólki í AA samtökin. 

Komst á leiðarenda

Hörður Ágústsson fór í meðferð og var í AA samtökunum í sex ár. „Ég komst á leiðarenda fyrir mig sjálfan í AA samtökunum [...] mér fannst vanta eitthvað eftir sex ára edrúmennsku. [...] Fannst vanta vöxt og fór að pæla hvenær mér færi að líða eðlilega, eins og venjulegu fólki [...] Fallið vofði alltaf yfir mér“. Hörður segist hafa fundið fyrir betri og stöðugri andlegri líðan eftir að hafa hætt fundasókn og leitað til sálfræðings „Ég held ég hefði getað flýtt mínum bata mjög mikið, skorið nokkur ár af þroti úr lífi barnanna minna og konu ef mér hefði verið bent á sálfræðing strax“. 

1.PNG

Kalli er þriðji viðmælandinn og er undir dulnefni þar sem hann er meðlimur í AA samtökunum. „Ég verð edrú tvítugur og næ að vera edrú í sex ár en ég lifði ekki beint lífinu í sex ár. Ég var stöðugt hræddur og óttasleginn um það að ég myndi fara aftur að drekka. Ég lifði lífinu þannig að ég var ekki að gera nóg og ef einhver annar var að lesa meira í AA bókinni að þá væri ég bara á leiðinni á fyllerí.“, segir Kalli og bætir við „þessi bók eru AA samtökin, hún er heilagur sannleikur og hana má ekki véfengja“. Kalli segist hafa lært og þroskað síðustu árin og því finna sig ágætlega innan AA samtakanna.

AA fyrir alla en samt bara suma

Öll telja þau félagsskapurinn í AA vel geta hjálpað fólki þó tvö af þremur viðmælendum hafi ekki fundið sig innan samtakanna. Hafa þau þó efasemdir um kynjablandaða AA fundi og ekki sé vænlegt að alhæfa um allt fólk og taka þurfi til greina ólíka reynslu fólks í bataferlinu. „Ekki fókusa á of mikið á hvað þú ert að nota, hversu lengi heldur hvers vegna þú ert að nota. Af hverju þú ert á þessum stað í dag. Það er einhver ástæða fyrir því. Ekki láta neinn segja við þig að þú sért ekki með nógu mikil áföll, þetta er allt einstaklingsbundið. Ég held ég hefði getað flýtt mínum bata mjög mikið, skorið nokkur ár af þroti úr lífi barnanna minna og konu ef mér hefði verið bent á sálfræðing strax“ segir Hörður og Kalli, sem er á fertugsaldri, tekur undir „ég hefði verið til í það bara tvítugur að einhver hefði sagt, þú þarft að fara til geðlæknis, sálfræðings eða fá áfallahjálp“.

Kristín telur það hreinlega geta verið hættulegt fyrir þolendur ofbeldis að fara í AA samtökin, gefa frá sér allt vald og taka ábyrgð á því sem hefur komið fyrir það. „Margar konur koma inn með mikla ofbeldissögu og síðan eiga þær að byrja á því að gefa frá sér allt vald. Það er mjög hættulegt. Það er ekki það sem þessar konur þurfa. [...] Þegar þú ert að láta þolendur axla svona mikla ábyrgð í sporavinnu [...] jafnvel að fara til ofbeldismannanna og játa sinn hlut, gerist ekki ófemínískara og getur verið mjög skaðlegt ferli.“ Þótt Kristín telji sumt ágætt við AA samtökin telur hún þó mikilvægt að fólk passi hvert það leiti sér hjálpar og leiti helst til fólks með leyfi frá landlækni t.d. geðlækna og sálfræðinga.

Hlustaðu á 38. hlaðvarpsþátt Karlmennskunnar „Guð gefi mér æðruleysi“

Viðmælendur: Hörður Ágústsson, Kalli (dulnefni) og Kristín I. Pálsdóttir.

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

Þátturinn er í boði Macland, Veganbúðarinnar og The Body Shop.


Previous
Previous

„Hvað eigum við að öskra þetta lengi!?“

Next
Next

„Við verðum að afbyggja það að hvít karlmennska sé hlutleysi“