Hreyfimyndir

Í þessum teiknuðu útskýringarmyndböndum er fjallað um skömm, þunglyndi og mikilvægi þess að leyfa strákum að sjá og tjá tilfinningar. Handritið er unnið af Huldu Tölgyes sálfræðingi, Þorsteini V. Einarssyni og hreyfigrafík er eftir Sigrúnu Hreinsdóttur. Nýsköpunarsjóður VÍS styrkti framleiðslu myndbandanna.


Leyfum strákum að sjá og tjá tilfinningar

Jákvæð karlmennska er andsvar við þeirri skaðlegu karlmennsku sem krefur karla og drengi um að bæla niður tilfinningar, fela þær, gefa þeim ekki gaum, tala ekki um þær og leita sér seint eða síður aðstoðar vegna vanlíðan. Strákar fæðast ekki með færri tilfinningar en önnur kyn en þeir hafa takmarkað svigrúm til að gangast við, tjá og læra að þekkja tilfinningar sínar. „Hættu þessu væli“, „engan aumingjaskap“, „harkaðu af þér“, „ekki vera kelling“, ertu ekki alvöru maður?“ eru lýsandi dæmi um hvernig skaðlegar karlmennskuhugmyndir hafa verið innrættar hjá strákum, viðhaldið hjá körlum og fest í sessi þá hugmynd að strákar og karlar megi ekki eða eigi ekki að vera berskjaldaðir fyrir tilfinningum sínum. En tilfinningar eru ekki kynjaðar og strákar finna svo sannarlega til. Þeir hafa bara margir lært að bæla tilfinningar sínar, fela þær og gangast ekki við þeim með alvarlegum afleiðingum fyrir þá sjálfa, þeirra samferðafólk og samfélagið í heild.


Um Karlmennskuna

Þorsteinn V. Einarsson kennari og kynjafræðingur ber ábyrgð á verkefninu Karlmennskan. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á íhaldssamar ráðandi karlmennskuhugmyndir, hreyfa við þeim, skapa jákvæðri karlmennsku frekari sess og styðja í leiðinni við jafnrétti í íslensku samfélagi. Sálfræðingurinn Hulda Tölgyes vinnur náið með Þorsteini og bera þau m.a. í sameiningu ábyrgð á átaksverkefninu Jákvæð karlmennska og texta- og heimildavinnu fyrir átak VR um Þriðju vaktina.


Annað hjálplegt efni

Stuttar skýringamyndir sem skýra tilfinningar og áhrif menningar til félagsmótunar.

Pop Culture Detective á youtube rýnir í kvikmyndaefni á áhugaverðan hátt